Ferill 1024. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1960  —  1024. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um fjarskipti í Kjósarhreppi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Stendur yfir vinna í ráðuneytinu við að bæta úr fjarskiptaöryggi í Kjósarhreppi í ljósi þess að eðlilegt farsímasamband er brýnt öryggismál og víða í hreppnum er farsímasamband mjög lélegt eða jafnvel ekkert?

    Ráðuneytið leitaði umsagnar hjá fjarskiptasjóði og Fjarskiptastofu um fyrirspurnina og er svar ráðherra byggt á umsögnum þeirra.
    Langflest ef ekki öll lögheimili og vinnustaðir í Kjósarhreppi eru þegar tengd við ljósleiðara. Það er ekki síst að þakka stórhug heimamanna sem sóttu um og hlutu umtalsverða styrki frá fjarskiptasjóði á liðnum árum til að ráðast í metnaðarfulla uppbyggingu á ljósleiðarakerfi samhliða lagningu hitaveitu sem tekur til hluta hreppsins. Sveitarfélagið Kjósarhreppur á og rekur fjarskiptafyrirtækið Leiðarljós ehf. sem veitir fjarskiptatengingar til íbúa og fyrirtækja í hreppnum um ljósleiðaraaðgangsnet. Flest ef ekki öll af stærri fjarskiptafyrirtækjum landsins bjóða fjarskiptaþjónustu yfir þær tengingar. Jafnframt veita farnetsfyrirtækin þráðlausa fjarskiptaþjónustu sem nær til flestra bygginga í hreppnum. Kjósarhreppur telst því ekki til svæða þar sem taldar eru líkur á þörf fyrir frekari opinbera aðkomu að fjarskiptauppbyggingu á grundvelli byggðaáætlunar innviðaráðuneytisins.
    Svokölluð alþjónusta í fjarskiptum miðast við a.m.k. 10 Mb/s netsamband sem getur borið talsímaþjónustu yfir netið, svokallað VoIP, eins og lýst er í reglugerð um alþjónustu á sviði fjarskipta nr. 1100/2022. Um er að ræða þá lágmarksfjarskiptaþjónustu sem stjórnvöldum ber að tryggja lögheimilum. Alþjónusta er tæknilega óháð, þ.e. engu skiptir hvort hún telst uppfyllt með nettengingu yfir koparlínu, ljósleiðara, farnet eða með annarri radíótækni.
    Svokölluð alþjónustukvöð hvílir á Neyðarlínunni ohf. sem þýðir að félagið hefur það verkefni að tryggja lögheimilum alþjónustu þar sem hún næst ekki á markaðslegum forsendum og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hægt er að hafa samband við Neyðarlínuna telji íbúar að alþjónusta sé ekki uppfyllt á lögheimili þeirra.
    Aðgangur lögheimila að farsíma- og/eða farnetsþjónustu er þegar um 99,9% hér á landi. Fjarskiptastofa lauk nýverið endurútgáfu á tíðniheimildum til 20 ára til farsímafélaganna og fylgja þeim endurúthlutunum miklar kröfur um hvort tveggja útbreiðslu og gagnahraða farnets. Sérstök áhersla var lögð á fullt samband á öllum stofnvegum. Útbreiðslukröfurnar eru ekki gagnvart tilteknum sveitarfélögum eða svæðum innan þeirra. Rétt er að taka fram að ekkert dreifbýlt sveitarfélag er með fullkomna dreifingu farnets. Það skýrist einkum af landslagi og kostnaði við að koma slíkri þjónustu á á afskekktum stöðum þar sem notkun er lítil eða nánast engin.
Stjórnvöld hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að umhverfi fjarskipta og mótun þess. Lög um fjarskipti gera ráð fyrir því að fjarskiptaþjónusta sé veitt á samkeppnismarkaði sem lýtur skýru en krefjandi regluverki. Markaðsaðilar bjóða fjölbreytta fjarskiptaþjónustu og eiga í samkeppni á grundvelli eiginleika hennar og verðlagningar án þess þó að afsláttur sé gefinn af öryggi fjarskiptanna. Ef þjónusta sem veitt er telst ekki fullnægjandi að mati notenda og alþjónustukrafa er ekki uppfyllt má leita til Neyðarlínunnar ohf. um að alþjónustukvöð verði uppfyllt. 1

    

1    
Sjá einnig upplýsingar á vef Fjarskiptastofu: www.fjarskiptastofa.is/fjarskiptastofa/tolfraedi-og-gagnasafn/frettasafn/frett/Fr%C3%A9ttir/utgafa -tidniheimilda-til-20-ara-med-skilyrdum-um-hahradafarnetsthjonustu-i-byggd-og-a-stofnvegum